Peningar, húsnæðismál og ungt fólk

06.02.2016
Öllum er ljós vandinn í húsnæðismálum. Nýleg könnun Stúdentaráðs Háskóla Íslands sýnir að 26% nema telja að þeir geti ekki keypt sér húsnæði eftir nám og 31% telja að þeir geti ekki gert það fyrr en 5 árum eftir nám.

Það er athyglisvert að þetta gerist þrátt fyrir að óhemju fjármunum hafi verið varið í þennan málaflokk á undanförnum árum. Frá árinu 2008 hefur ríkisvaldið lagt 77,8 milljarða í samfélagsbankann Íbúðalánasjóðinn.

 

Langstærsti hlutinn er til að halda lífi í þessum litla banka sem fáir vilja vera í viðskiptum við. Framlög ríkisins – skattgreiðenda – til Íbúðalánasjóðs nema svipaðri fjárhæð og áætlaður kostnaður við að reisa nýjan Landspítala.

 

Það er öllum er ljóst að hægt er að ná fram markmiðum með rekstri bankans fyrir brot af þeirri upphæð sem að kostar að halda honum á lífi en af einhverjum ástæðum er nokkuð góð pólitísk sátt um að eyða fjármunum skattgreiðenda með þessum hætti.

 

 

 

Á þessum sama tíma hafa vaxtabætur og sérstakar vaxtabætur kostað skattgreiðendur 95 milljarða króna. Vaxtabætur eru í eðli sínu skuldahvetjandi bætur og er enginn vafi að skynsamlegra væri að þær færu beint inn á höfuðstól lána.

Niðurfærslur húsnæðislána eða leiðréttingin hefur síðan kostað 54 milljarða. Samanlagt eru þetta 237 milljarðar en fyrir þær upphæðir hefði verið hægt að kaupa 8.500 íbúðir á 28 milljónir en það svipað og fjöldi íbúða og húsa í Reykjanesbæ.

 

Lóðaverð og lóðaframboð

Lóðaverð hefur hækkað um 508% á 12 árum og nemur nú 17% af byggingarkostanaði fjölbýla og 21% af byggingarkostnaði sérbýla. Samkvæmt tölum Samtaka Iðnaðarins getur opinber kostnaður numið allt að 30% af kostnaði við byggingu á íbúð í fjölbýlishúsi. Kostnaður vegna nýju byggingarreglugerðarinnar nemur 8,5%.

 

 

 

Nýju húsnæðisfrumvörpin

Húsnæðismál eru að hluta til efnahagsmál og eru jafnt á borði ríkis- og sveitarfélaga. Það verður þess vegna að líta á þau í samhengi. Ekki dugar  að horfa eingöngu til þeirra húsnæðisfrumvarpa sem nú liggja fyrir þinginu.

Þau frumvörp gera ráð fyrir miklum breytingum og enn er mörgum spurningum ósvarað um áhrif fyrirhugaðra breytinga. Ekki síst þegar kemur að opinberum útgjöldum. Einnig hefur það verið gagnrýnt að:

 

•       Hér er um að ræða mikið inngrip hins opinbera í húsnæðismarkaðinn. Það getur haft alvarlegar afleiðingar og valdið verðbólgu með tilheyrandi hækkun lána. Fátt er verra fyrir húsnæðiskaupendur og leigjendur en verðbólga og óstöðugleiki.

 

•       Nýtt kerfi er flókið og umsýslan verður á tveim stjórnsýslustigum og á þrem stöðum. Það er sérstaklega bagalegt fyrir þá sem þurfa að sækja þjónustu á þessu sviði.

 

•       Markmið frumvarpanna er að hjálpa þeim lægstlaunuðu en þrátt fyrir það fá fleiri með hærri tekjur rétt á niðurgreiðslu á leigu. Ekki hefur verið skoðað hvaða áhrif þetta hefur á einstaka tekjuhópa og hvort að fátæktargildrur myndist.

 

•       Umsýsla og framkvæmd opinbers húsnæðisstuðnings verður kostnaðarsöm. Hún mun kosta 93 milljónir á ári í rekstur og til viðbótar þarf að leggja í 20 milljóna einskiptis kostnað.

 

•       Frumvörpin eru reyndar þvert á ráðleggingar AGS sem lagði til einföldun bótakerfis og beinan fjárstuðning við tekjulægri hópa í stað útgjaldatengdra húsnæðisbóta.

 

•       Hætta er á að aukinn stuðningur til handa leigjendum lendi í vasa leigusala.

 

•       Ekki er ljóst hver verður framtíð Íbúðalánsjóðs. Vandi þess samfélagsbanka mun ekki leysast af sjálfu sér sem þýðir að skattgreiðendur þurfa að leggja sjóðnum til enn meira fé ef ekkert verður að gert.

 

•       Framtíðarfjármögnun húsnæðislána verður að vera tryggð. Það verður að vera jafnvægi á milli útlána og fjármögnunar.

 

Hvað verðum við að gera?

 

Það er markmið að fólki geti búið í öruggu húsnæði og að sem flestir búi við fjárhagslegt sjálfstæði. Við þekkjum það af reynslunni að ríkisútgjöld tryggja það ekki. Reyndar er margt sem bendir til að ríkisútgjöld geti valdið skaða.

 

En hvað þarf til að bæta ástandið:

 

1.       Stöðugleiki er forsenda þess að fólk geti eignast húsnæði með viðráðanlegum hætti. Það gleymist oft að óstöðugleiki og verðbólga er versti óvinur þeirra sem að skulda. Það er augljóst að fólk verður að skuldsetja sig þegar að það festir kaup á íbúð.

 

2.       Sparnaður er forsenda þess að fólk geti eignast húsnæði. Þau kerfi sem að við höfum til að hjálpa fólki að eignast húsnæði verða að hvetja til sparnaðar. Núverandi kerfi hvetja til skuldsetningar ef undan er skilið húsnæðissparnaðurinn í viðbótarlífeyriskerfinu. Það fyrirkomulag er mjög gott. Þeir sem spara með þeim hætt fá í raun tekjuskattinn til að fjárfesta í húsnæði og einnig framlag frá atvinnurekenda og ávöxtun á öll þessi framlög. Það verður að festa þetta kerfi í sessi og auka kynningu á kostum þess.

 

3.       Opinber kostnaður verður að lækka. Opinber kostnaður er 33% af byggingarkostnaði. Það er hægt að lækka hann ef vilji er fyrir hendi. Einfalda þarf byggingarreglugerðina og sveitarfélögin verða að lækka  kostnað.

 

4.       Sveitarfélögin og þá sérstaklega Reykjavík verða að auka lóðaframboð sitt. Þétting byggðar er oftast af hinu góða en sú leið er alla jafna dýr leið. Það þarf að byggja 1.500 íbúðir á ári til að mæta auknum fjölda íslendinga. Á undanförnum árum hefur framboðsaukningin verið mun minni eða 350 – 1.000 íbúðir

 

5.       Það verður að tryggja langtímafjármögnun húsnæðislána og það verði jafnvægi á milli fjármögnunar og útlána. Það er ekki einungis mikilvægt fyrir húsnæðiseigendur heldur ekki síður fyrir efnahagslífið. Ef fjármögnunin er óstöðug getur það haft mjög alvarlega afleiðingar fyrir almenning í landinu. Núverandi staða Íbúðalánasjóðs er gott dæmi um hvað getur gerst þegar ekki er til staðar jafnvægi í fjármögnun.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður