Stefnumál Sjálfstæðisflokksins - Félags- og tryggingamál

25.10.2017

 

 

*Hækkun frítekjumarks atvinnutekna strax í 100 þúsund á mánuði
 

*Sveigjanleg starfslok
 

*Sjálfstætt líf á eigin heimili
 

*Sérstakt átak í fjölgun hjúkrunarheimila
 

*Við viljum hækka hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði
 

*Við viljum styrkja fjárhagslega stöðu öryrkja með börn í námi
 

*Starfsgetumat örorku verði innleitt í lög og hlutabótakerfi tekið upp með
frítekjumarki sem innifelur hvata til atvinnuþátttöku fólks með skerta
starfsorku

 

*Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) lögfest og sjálfstæði fólks með fötlun
tryggt

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tryggt eldri borgurum mestu kjarabætur í áratugi með gagngerum kerfisbreytingum á almannatryggingakerfinu. Áfram verður lögð áhersla á að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara.

 

Lífeyriskerfi almannatrygginga hefur verið einfaldað þannig að nú er einn flokkur ellilífeyris í stað þriggja áður, auk heimilisuppbótar. Það er einfaldara og gangsærra, sanngjarnara og skiljanlegra. Lágmarkslífeyrir þeirra sem búa einir verður 300 þúsund krónur frá og með 1. janúar 2018. „Króna á móti krónu“ skerðingin var afnumin og séreignarsparnaður skerðir ekki greiðslur í almannatryggingum líkt og í eldra kerfinu.

 

Við ætlum að gera enn betur og hækka frítekjumark atvinnutekna strax í 100 þúsund krónur á mánuði.

 

Með breyttum lögum hefur sveigjanleiki til töku lífeyris verið aukinn og kostum einstaklinga varðandi starfslok fjölgað. Nú er hægt að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri og einnig fresta til 80 ára aldurs. Frá 1. janúar 2018 verður hægt að taka hálfan lífeyri hjá TR og hálfan lífeyri hjá lífeyrissjóðum ásamt atvinnuþátttöku.

 

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að eldri borgarar geti búið sjálfstæðu lífi á eigin heimili sem lengst og að aldraðir á dvalar- og hjúkrunarheimilum haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Við ætlum að styrkja heimaþjónustuna og gera sérstakt átak í fjölgun hjúkrunarheimila. Þrír milljarðar á ári munu renna úr Þjóðarsjóði í það átak á næstu árum. Heimaþjónusta taki mið af aldri og þörf og verði veitt samkvæmt viðurkenndu þjónustumati.

 

Við viljum tryggja að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fari ekki undir meðallaun á almennum vinnumarkaði. Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verða að taka tillit til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála á hverjum tíma.

 

Tryggja þarf að allir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma og/eða slysa, fái tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið. Tekið verði upp starfsgetumat og hlutabótakerfi örorkulífeyris með frítekjumarki lögfest.


Við viljum jafna stöðu ungmenna í námi sem búa hjá foreldrum á örorkulífeyri. Það er réttlætismál að foreldrar þeirra haldi sömu framfærslu eftir að börn þeirra verða 18 ára, meðan á námi stendur.

 

Leitast þarf við að fötlun og/eða sjúkdómar komi ekki í veg fyrir atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði. Nauðsynlegt er að notendastýrð persónuleg aðstoð, NPA, verði innleidd sem eitt af meginformum þjónustu við fatlað fólk. Leitast skal við að fatlaðir einstaklingar hafi val um að stýra þjónustu sinni sjálfir.

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill auka sjálfstæði fólks með mikla fötlun, bæði hvað varðar atvinnuþátttöku og samgöngur.

 

Smelltu hér til að kynna þér önnur stefnumál Sjálfstæðisflokksins