Stefnumál Sjálfstæðisflokksins - Mennta- og menningarmál

26.10.2017

 

  • Auka skilvirkni á grunn- og framhaldsskólastigi og fjölga sjálfstætt starfandi skólum
  • Nýta betur tækniþróun og samskiptatækni í menntamálum

 

  • Við ætlum að endurskoða kennsluaðferðir og skólastarf
  • Auka framlög til háskólastigsins til meðaltals OECD-landa
  • Við viljum að námsmenn fái styrk til náms – ekki bara lán
  • Efla skal verknám almennt
  • Hlúð verði að menningu og listum.
  • Listnám og skapandi greinar efld á öllum skólastigum
  • Auka á vægi íþrótta og heilsuræktar í tengslum við skólastarf

 

Markmið menntakerfisins er að tryggja börnum okkar og ungmennum bestu
mögulegu menntun til þess að undirbúa þau undir lífið. Það þarf að kenna þeim til
verka, veita þeim fjölbreytilegan fróðleik og kunnáttu, og kveikja hjá þeim
fróðleiksþorsta.

Við þurfum að hugsa menntamál upp á nýtt með fagfólki,
kennurum, nemendum og foreldrum. Í heimi sem breytist hratt verður
menntakerfið að vera sveigjanlegt og framsækið til að halda í við þróun og
alþjóðlega samkeppni. Við ætlum að endurskoða kennsluaðferðir og skólastarf í
samvinnu við sveitarfélög, kennara, nemendur og foreldra.

Lögð verður aukin áhersla á gæðamál og skilvirkni á grunn- og framhaldsskólastigi
og fjölga sjálfstætt starfandi skólum einkum á grunnskólastigi, m.a. til að auka
valfrelsi. Gæða- og árangursmælikvarðar eru mikilvægir og þá sérstaklega við mat
á námi og frammistöðu nemenda og framgangi kennara í starfi.

Draga þarf úr brottfalli nemenda. Stjórnvöld þurfa að hafa áhrif á og styðja
sveitarfélög við að efla starf á leik- og grunnskólastigi og auka sveigjanleika milli
skólastiga, m.a. þurfa nemendur að geta hafið grunnskólanám við 5 ára aldur.

 

Stjórnvöld munu auka framlög til háskólastigs til meðaltals OECD-landa. Jafnframt
þarf að efla verknám og gera þarf nemendum auðveldara að komast á samning,
m.a. í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Kröfur atvinnulífsins til hæfni og
þekkingar starfsmanna taka sífelldum breytingum. Auðvelda þarf nemendum afla
sér þekkingar við hæfi á ólíkum sviðum.

Við ætlum að taka upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd, 65.000 króna styrk
á mánuði og lán ofan á það upp að fullri framfærslu með samtímagreiðslu, sem
íslenskum námsmönnum hefur aldrei áður staðið til boða. Mikill meirihluti
námsmanna mun njóta ávinnings af breytingunum.

Íþróttir og heilsurækt eru lykilatriði í vellíðan þjóðarinnar. Við viljum tengja
hreyfingu og íþróttastarf við öll skólastig. Líkamsrækt og íþróttastarf er afar
mikilvægur þáttur í uppvexti allra barna og lykillinn að góðri lýðheilsu.

Við viljum standa öðrum þjóðum jafnfætis þegar kemur að því hvernig við búum að
afreksíþróttafólki okkar. Kominn er tími til að endurnýja þjóðarleikvang okkar
Íslendinga.

Íslensk menning og tunga er það sem gerir okkur að þjóð. Verja þarf stöðu
tungunnar í heimi upplýsingatækni og gervigreindar og hlúa markvisst að
menningu og listum. Listnám verður eflt á öllum skólastigum, og nám á sviði
skapandi greina, forritunar og hönnunar tekið upp á almennu grunn- og
framhaldsskólastigi. Menning og listir eru hluti af atvinnusköpun á sviði iðnaðar,
ferðaþjónustu og flestra greina atvinnulífs næstu áratugi.

 

Smelltu hér til að kynna þér önnur stefnumál Sjálfstæðisflokksins