Breytt pólitískt landslag á Íslandi

13.11.2017

Það er nokkuð ljóst að pólitískt landslag er breytt á Íslandi. Herförin gegn fjórflokkunum hefur gengið vel, enda eiga nú átta stjórnmálaflokkar sæti á Alþingi.

 

Það er nokkuð ljóst að pólitískt landslag er breytt á Íslandi. Herförin gegn fjórflokkunum hefur gengið vel, enda eiga nú átta stjórnmálaflokkar sæti á Alþingi. Við sem vön erum stjórnmálalegum stöðugleika horfum fram á nýja tíma. Vaninn var að stjórnmálamenn tókust á fyrir kosningar, en að þeim loknum gátu menn sest niður, náð málamiðlunum og starfað saman.

 

Núna getur þessi ekki unnið með þessum og hinum, og menn hlaupandi í að reyna að mynda blokkir til að útloka aðra frá völdum, þrátt fyrir að „skrímslin“ séu lýðræðislega kjörin á þing og sumum tilfellum með miklu betra fylgi en góða fólkið. Virðingin fyrir fólki með aðrar skoðanir er ekki lengur til staðar i íslenskum stjórnmálum. Þeir muna eflaust margir eftir því hvernig Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson, tókust á með stóryrðum. Þegar Ólafur Ragnar missir eiginkonu sína, þá var Davíð fyrsti maðurinn til að aðstoða fjölskylduna á erfiðum tímum. Þeir báru, og bera virðingu fyrir hvor öðrum þrátt fyrir að hafa verið andstæðingar í pólitík.

 

Þá var borin virðing fyrir því ef einhver fékk stjórnarmyndunarumboð, eða áttu í óformlegum viðræðum. Nú sjáum við formann Samfylkingarinnar á hlaupum á milli flokka til að safna liði í von um að lokka VG og Framsókn frá Sjálfstæðisflokknum í nafni réttlætis og jöfnunar. Vinnubrögðin við að ná völdum eru slík að menn svífast einskis,og beita eineltistilburðum í vegferð sinni fyrir hönd góða fólksins.

 

Einnig er það einkennilegt að varaformaður VG sé með yfirlýsingar um það hverjir úr Sjálfstæðisflokknum megi verða ráðherrar í ríkisstjórn VG. Fyrirgefið mér, en VG hlaut 16% í kosningunum ekki 46%. Á sama tíma vekur athygli að Katrín náði ekki nú sem fyrr að mynda ríkisstjórn til vinstri, skilar umboðinu, en biður forsetann að láta ekki ekki hendurnar á öðrum. Umboðið er bara í frosti á Bessastöðum.

 

Forsetinn hlýðir eins og góður rakki sem er áfellisdómur yfir forsetanum, sem sýnir það og sannar að hann á ekkert erindi á Bessastaði.

 

Á meðan formenn stjórnmálaflokkanna gjamma út í eitt, mynda blokkir með eineltistilburðum og gleyma hjá hverjum þeir vinna fyrir, henda málefnunum út í hafsauga og forsetinn liggur rænulaus á Bessastöðum, rekur þjóðarskútan stjórnlaus. Ég er í raun farinn að sakna fjórflokkanna, enda tíðkaðist í þá daga virðing fyrir mönnum og málefnum og hæft fólk gaf kost á sér í stjórnmálin, en það er víst liðin tíð.

 

Höf: Árni Árnason, stjórnarmaður í Verði