Fjármál - Ályktun Reykjavíkurþings 2017

05.12.2017

 

Almenn atriði • Útsvar lækkað • Skuldir greiddar upp • Ráðdeild í rekstri borgarinnar.

 

 

Tekjuhlið

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill að útsvar verði lækkað í áföngum og komið niður fyrir meðalútsvar á landsvísu á kjörtímabilinu. Markmið til lengri tíma er að útsvarið fari í lögbundið lágmark, þ.e. úr 14,52% í 12,44%. Reykjavík á að vera fyrsti kostur fyrir alla þá sem vilja búa á höfuðborgarsvæðinu. Með auknum íbúafjölda aukast útsvarstekjur sem gerir borgina betur í stakk búna til að sinna grunnþjónustu.

 

Reykjavíkurborg skal tryggja að ávallt sé nægjanlegt framboð af lóðum til sölu.

Sjálfstæðisflokkurinn vill að byggingarréttargjald verði fellt niður. Þá skal gatnagerðargjald vera samkeppnishæft við nágrannasveitarfélög. Þannig verður tryggt að lóðir í nýbyggingarhverfum séu seldar á kostnaðarverði. Lagt er til að öllum leigulóðum íbúðarhúsnæðis verði afsalað til eigenda húsnæðis þess sem á lóðunum stendur.

 

Útgjaldahlið - Mikilvægt er að sýna ráðdeild í rekstri borgarinnar.

 

Velferðarsvið

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill hverfa frá lóðaskortsstefnu, leggja áherslu á hjálp til sjálfshjálpar og skýrari stefnumörkun. Forgangsraðað skuli í þágu barna, aldraðra og fatlaðra en öðrum hópum hjálpað til sjálfshjálpar. Þess er vænst að slík stefnumörkum dragi úr eftirspurn eftir velferðarþjónustu á næstu árum.

 

Skóla og frístundasvið 

 

Tryggja þarf að allir fái nám við hæfi, en þó þannig að aðstoð við einn skerði ekki þjónustu við aðra. Þá verður að tryggja að fjármagn fylgi nemendum og að val sé um skóla. Innleiða þarf breytingar sem draga úr miðstýringu og stuðla að auknu sjálfstæði hvers leik- og grunnskóla.

 

Umhverfis- og skipulagssvið 

 

Dregið hefur úr fjárframlögum til samgöngumála. Vinda verður ofan af uppsafnaðri viðhaldsþörf og forgangsraða í þágu brýnna samgönguúrbóta.

 

Íþrótta-og tómstundasvið

 

Standa þarf vörð um forvarnargildi íþrótta-og tómstundastarfs.

 

Menningar- og ferðamálasvið 

 

Taka þarf framlög og styrki til menningarmála til gagngerrar endurskoðunar og forgangsraða fjármunum í þágu barna- og unglinga. Stefnt skuli að því að styrkir frá einstaklingum og fyrirtækjum ásamt aðgangseyristandi að mestu undir rekstri safna í eigu borgarinnar.

 

Annað

 

Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að Malbikunarstöðin Höfði verði seld og söluandvirðið nýtt til uppgreiðslu skulda. Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að Reykjavík undanskilinni bjóða út sorphirðuþjónustu til einkaaðila.

 

Bjóða skal út rekstur sorphirðu Reykjavíkurborgar í áföngum, hverfi fyrir hverfi, þannig að til lengri tíma litið verði öll sorphirða komin í útboð. Þá skal skoða sölu á Sorpu í samstarfi við önnur sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins.

 

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er fylgjandi því að afnumin verði sú skylda sem hvílir á Reykjavíkurborg samkvæmt lögum að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í að minnsta kosti 23 við næstu sveitarstjórnarkosningar í maí 2018 og vill færa það í hendur borgarstjórnar sjálfrar að ákveða hvort þörf sé á fjölgun borgarfulltrúa.

 

Við erum á Facebook