Íþrótta- og tómstundamál - Ályktun Reykjavíkurþings 2017

05.12.2017

 

Lýðheilsa

 

Stöðu íþróttamála í Reykjavík er ábótavant og brýn þörf er á uppbyggingu íþróttamannvirkja. Greiða verður götu þeirra íþróttafélaga sem hyggja á framkvæmdir.

 

Gera verður áætlun til nokkurra ára til að leysa úr brýnustu þörfinni. Setja þarf reglur um kostnaðarskiptingu milli borgar og íþróttafélaga til uppbyggingar íþróttamannvirkja og hrinda nýrri stefnu sem fyrst í framkvæmd

 

Reykjavíkurborg ber að sýna forystuhlutverk á sviði afreksíþrótta. Lagt er til að samstarf borgarinnar við íþróttahreyfingu í heild sinni verði stóraukið. 

 

Stefna skal að því að efla íþrótta- og heilsurækt eldri borgara með stuðningi við sjálfsprottin verkefni í því skyni að bæta lýðheilsu.

 

Íþrótta- og tómstundaiðkun barna og unglinga

 

Í flestum hverfum borgarinnar er íþrótta- og tómstundaiðkun barna og unglinga mikil.

Beina þarf sjónum að hverfum þar sem þátttaka er dræm og gera ráðstafanir til að auka hana. Styrkja þarf tengsl íþróttafélaga og tómstundastarfs við grunnskóla borgarinnar með það að marki að ná fram betri nýtingu á aðstöðu borgarinnar. Sérstaklega þarf að hvetja börn nýbúa til þátttöku í fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi.

 

Aðstöðumál

 

Þörf er á nýju fjölnota íþróttahúsnæði í Reykjavík. Laugardalshöllin, heimavöllur landsliða hand- og körfuknattleiks, er nú þegar á undanþágu frá kröfum viðkomandi alþjóðasamtaka. Reykjavíkurborg beiti sér fyrir ásættanlegri lausn til úrbóta með breiðri aðkomu atvinnulífsins, ríkis og sveitafélaga. Ný tækifæri gætu skapast með slíku húsnæði og má þar nefna stærri íþróttaviðburði, vörusýningar, ráðstefnur og hljómleika.

 

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að sátt náist um framtíðaruppbyggingu Laugardalsvallar og beiti sér fyrir því að borgin gangi til samninga við KSÍ um framtíð vallarins.

 

Við erum á Facebook