Skóla- og frístundamál - Ályktun Reykjavíkurþings 2017

05.12.2017

Nám við allra hæfi, byggt á auknu valfrelsi og fjölgun valkosta -Fjölbreytni og sveigjanleiki.

Stefna Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í skólamálum byggir á því að allir nemendur hafi aðgang að námi sem hentar hverjum og einum.

 

Hagsmunir nemenda séu ávallt miðpunktur stefnumörkunar og framkvæmda í skólum borgarinnar.

 

Lögð verði áhersla á að auka fjölbreytni í skólastarfi og fjölga valkostum í námsleiðum og rekstrarformi skóla. Áhersla verði færð frá miðstýringu í átt að auknu sjálfstæði og sveigjanleika í skólastarfi.

 

Fjármagn til náms skal fylgja hverjum nemanda, þannig að fé fylgi barni í námi. Efla þarf tengsl skóla og atvinnulífs. Lögð verði áhersla á að kynna tækni- og iðngreinar fyrir börnum til að fleiri nemar skili sér í iðn- og tækninám.

 

Kröfur um árangur og framfarir

 

Meginviðfangsefni skólastarfs eru aukinn námsárangur og framfarir í námi og kennslu. Til að meta þann árangur þarf reglubundnar mælingar og viðmið, sem öllum eiga að vera aðgengileg. Auka þarf gagnsæi í árangursmælingum. Tryggja þarf aðgengi allra skóla að viðeigandi og stöðluðum skimunar- og mælitækjum.

 

Sjálfstæðisflokkurinn fagnar fjölbreytileikanum. Bæta þarf úrræði fyrir börn með sértækar þarfir. Fjölga þarf úrræðum fyrir nemendur sem þurfa sérstaka aðstoð í námi, þannig að allir nemendur fái notið sín. Öll börn eiga að fá notið sín í námi.

 

Mikilvægt er að kynna og byrja að nota sjálfræði til náms, þ.e. að nýta tæknina til að börn geti lært að afla sér þekkingar og nota gagnrýna hugsun á sínum hraða og á sínum forsendum.

 

Treysta þarf faglegri færni skólafólks og veita því nauðsynlegt svigrúm til að efla starfsþróun, til að auka starfsánægju og styrkja kennslu. Meta þarf hvort skóli án aðgreiningar hafi skilað tilætluðum árangri og hvaða áhrif sú stefna hafi haft á kennara, nemendur og foreldra þeirra.

 

Í mati á viðhorfi til skólastarfs sé leitað álits nemenda og tekið tillit til hugmynda þeirra við leit að úrbótum.

 

Bætt skóla-og námsumhverfi

 

Gera þarf átak í endurbótum og viðhaldi á skólahúsnæði, sem víða er í slæmu ásigkomulagi vegna langrar vanhirðu. Sömuleiðis þarf að lagfæra og bæta skólalóðir og skólaumhverfi.

 

Öryggi og heilsa nemenda sé ávallt í forgrunni, þar með talið að fundnar séu lausnir við hávaðamengun. Leggja ber áherslu á fræðslu um ávinning hreyfingar og hollra lifnaðarhátta á öllum skólastigum.

 

Einnig þarf stórátak í tækni- og tækjavæðingu innan skóla, færa þarf umhverfi kennslu til þess sem þekkist utan skólanna. Horfa þarf sérstaklega til nýjunga og tækniþróunar í kennslu og skólastarfi. Styrkja þarf kennara til að tileinka sér nútímalegar leiðir í kennsluháttum. Skólabyggingar og skólaumhverfi þurfa fyrst og fremst að taka mið af þörfum nemenda.

 

Aðhald og sjálfstæði í rekstri

 

Til að styrkja kostnaðarvitund og rekstrarlega ábyrgð skólastjórnenda verði sjálfstæði hvers skóla aukið. Svigrúm verði gefið fyrir stjórnendur að stýra skólum sínum með ólíkum áherslum, að skólum verði 2 leyft að finna sér sérstöðu og rækta hana sérstaklega. Þannig verði fjölbreytni í skólastarfi aukin og valkostum fjölgað. Skólum verði veitt svigrúm til að umbuna sérstaklega fyrir vel unnin störf eða verk í skólum, en þannig myndast hjá þeim hvatning til umbótastarfs og skólaþróunar.

 

Leikskólamál

 

Dagvistunarúrræði barna verði tryggð frá 12 mánaða aldri. Stuðlað verði að fjölbreytni í úrræðum og valkostum verði fjölgað, m.a. með greiðslum til þriðja aðila. Jafnræðis skal gætt milli úrræða þannig að fé fylgi barni í vistun til þess að hægt sé að koma til móts við misjafnar þarfir barna og foreldra.

 

Frístundastarf

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill að Reykjavíkurborg bjóði upp á faglegt og fjölbreytt frístundastarf fyrir börn og unglinga, þar með talið fötluð ungmenni. Lögð verði áhersla á að aðstaða í frístundastörfum verði bætt. Reglulega þarf að greina og meta frístundastarf til þess að stuðla að framförum og meta hvort starfið hafi skilað tilætluðum árangri.

 

Samstarf skóla og frístundaheimila verði aukið með þarfir nemenda í huga. Öllum börnum standi til boða pláss í sumarfrístund.

 

Vinnuskóli Reykjavíkur standi til boða börnum frá 8. bekk og starfsemi verði jafnframt efld. Sparað verði á öðrum stöðum en í starfi með börnum.

 

Við erum á Facebook