Umhverfis- og skipulagsmál - Ályktun Reykjavíkurþings 2017

05.12.2017

 

Endurskoðun á aðalskipulagi Reykjavíkur

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill tafarlaust endurskoða núgildandi aðalskipulag Reykjavíkur. Aðalskipulag þarfnast betra jafnvægis í þéttingu byggðar og nýrra byggingarsvæða.

 

Jafnframt þarf að gera öllum samgöngukostum jafn hátt undir höfði. Reykjavíkurborg má ekki glata samkeppnishæfni sinni sem ákjósanlegur kostur fyrir starfsemi fyrirtækja og búsetu einstaklinga. Ímynd Reykjavíkur sem höfuðborgar landsins hefur versnað og þeirri þróun þarf að snúa við. Vinna þarf nýtt aðalskipulag í fullri sátt við íbúa borgarinnar, eignir þeirra, umhverfi og náttúru. 

 

Flugvöllurinn í Reykjavík

 

Reykjavíkurflugvöllur er einn mikilvægasti  þátturinn í samgöngukerfi landsins. Flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni í aðalskipulagi í óskertri mynd. Tryggja þarf að hann uppfylli öryggiskröfur og alþjóðastaðla. Staðsetningu flugvallarins verði ekki breytt nema annar betri kostur bjóðist. 

 

Samgöngur fyrir alla

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi lagt áherslu á mikilvægi góðra samgangna í borginni hvort heldur sem um er að ræða hjólreiðar, almenningssamgöngur, leigubíla eða einkabíla.

 

Góðar samgöngur eru undirstaða nútíma lífshátta. Undanfarna áratugi hefur þessum málum hins vegar ekki verið sinnt sem skyldi í Reykjavík. Framtíðar byggingarland borgarinnar til norðurs og austurs hefur ekki verið tengt nægjanlega með stofnbrautum og hefur þetta m.a. valdið umferðartöfum og stuðlað að hækkandi fasteignaverði. 

 

Öryggi í umferðarmálum hefur vikið fyrir gæluverkefnum. Nauðsynlegt er að forgangsraða í þágu viðhalds og uppbyggingar á vegakerfi höfuðborgarinnar með öryggi að leiðarljósi. Meðal brýnna samgönguverkefna má nefna Sundabraut, bætt umferðarflæði Miklubrautar og tengingar við önnur sveitafélög. Örar tæknibreytingarmunu setja mark sitt á samgöngur framtíðarinnar. Skipulag þarf að taka tillit til þess.

 

Samningur Reykjavíkur, SSH og ríkisins um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu í samgöngumálum verði tekinn til endurskoðunar. Mótuð verði stefna í bílastæðamálum í Reykjavík þar sem fullt tillit verði tekið til þarfa fólks og fyrirtækja. Byggt verði upp landnotkunar- og umferðarlíkan fyrir alla samgöngumáta til framtíðar með þarfir almennings að leiðarljósi. Hafnarmannvirki í Reykjavíkurborg eru komin að þolmörkum og nauðsynlegt er að ráðast í uppbyggingu á næstu árum. 

 

Afnemum lóðaskortinn

 

Leggja skal áherslu á nýtingu byggingarlands austan Elliðaáa, í Grafarvogi, Úlfarsárdal, Gufunesi, Geldinganesi og Kjalarnesi. Fullt tillit skal tekið til lífsgæða íbúa og umhverfis.

 

Þetta skal gert með aukinni úthlutun lóða til einstaklinga og fyrirtækja á ofangreindum svæðum og með niðurfellingu á byggingarréttargjaldi, eins fljótt og auðið er.  Þessi stefna ásamt lagningu Sundabrautar tengir mun betur öll sveitarfélög á Vesturlandi við höfuðborgina og opnar víðlent vaxtarsvæði sem mun nýtast borginni um áratugi fyrir fyrirtæki framtíðarinnar og þá íbúa sem í þeim vinna. 

 

Jafnframt því að áfram verði markvisst unnið að því að bæta umhverfi og útivistarmöguleika í núverandi byggð leggur nefndin til að strax verði hafist handa við að undirbúa ofangreind svæði fyrir væntanlega byggðaþróun með umfangsmikilli trjárækt enda eru þarna stórkostleg útivistarskilyrði bæði til lands og sjávar.  Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að standa vörð um græn og opin svæði í borginni og hlúa að náttúruperlum, svo sem Elliðaárdal, Laugardal, Öskjuhlíð og svæðinu í kringum Reynisvatn.

 

Bætt skilyrði atvinnustarfsemi og einkaframtaks

 

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öfluga og fjölbreytta atvinnustarfsemi í Reykjavík. Hafa skal hverskonar nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í öndvegi.

 

Við erum á Facebook