Velferðarmál - Ályktun Reykjavíkurþings 2017

05.12.2017

Húsnæðismál -Ódýrari lóðir og fleiri valkostir

 

Sjálfstæðisflokkurinn telur það til grundvallarmannréttinda að allir hafi þak yfir höfuðið, hvort sem um ræðir eigið húsnæði, leiguhúsnæði, leigurétt, félagslegar íbúðir eða þjónustuíbúðir fyrir aldraða og öryrkja.

Þarfir einstaklinga eru ólíkar og taka breytingum eftir lífsskeiðum. Fjölgun lóða mun koma þeim vel sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda, í gegnum lækkun leigu og húsnæðisverðs.

 

Einfalda þarf byggingareglugerðina en stærð og gerð húsnæðis ætti að vera ákvörðun kaupanda og seljanda. Uppsöfnuð þörf fyrir húsnæði í Reykjavík er mjög mikil. Til þess að mæta þeirri þörf vill Sjálfstæðisflokkurinn fara blandaða leið þar sem þétting byggðar og uppbygging í nýjum hverfum gerist samhliða.

 

Lýðheilsa

 

Lýðheilsa og forvarnir verði settar í forgang. Unnið verði eftir hugmyndum lýðheilsu sem lúta að því að einstaklingar geti hámarkað lífsgæði sín, tækifæri og hamingju.

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill efla forvarnir og bæta heilsu á öllum sviðum og stuðla að heilbrigðari lífsháttum til þess að auka velferð. Mótuð verði stefna í baráttunni við lífsstílstengda sjúkdóma og þar sett fram ákveðin mælanleg markmið fyrir næstu 5 og 10 ár. Leggja ber áherslu á fræðslu um ávinning hreyfingar og hollra lifnaðarhátta á öllum skólastigum.

 

Geðheilbrigðis-og félagsmál

 

Leggja þarf meiri áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum með átaki og fræðslu.

Áhersla skal lögð á heilsueflandi þætti strax í leikskóla sem fylgt er eftir með skimun og snemmíhlutun, leiki grunur á um geðrænan vanda. Litið verði til hollrar næringar, hreyfingar og hugræktar til að draga úr vaxandi kvíða, streitu og andlegs vanda.

 

Stuðla þarf að fleiri úrræðum fyrir einstaklinga með geðræn vandamál, m.a. með aukinni fagþjónustu á heilsugæslustöðvum. Bæta þarf samstarf grunnskóla og heilbrigðisstofnana þegar kemur að geðheilbrigðismálum barna og ungmenna með fjölgun stöðugilda skólasálfræðinga. Sjá verður til þess að börn og ungmenni hafi greiðan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu án aðkomu foreldra eða forráðamanna.

 

Neysla fíkni- og vímuefna er heilsufarsvandamál á Íslandi. Taka þarf á hegðunar- og fíknivanda á grunnskólastigi með markvissri fræðslu og forvörnum og fylgja þeim einstaklingum eftir með skilvirkum hætti sem eiga við fíknivanda að stríða.

Líta þarf á fíkn sem heilbrigðisvanda en ekki löggæsluvanda. Tryggja þarf úrræði til endurhæfingar fíknisjúklinga og auðveldari endurkomu í samfélagið. Reykjavíkurborg skal vera leiðandi í skaðaminnkunarúrræðum og styðja vel við verkefni á borð við Frú Ragnheiði, Borgarverði og Dagsetrið.

 

Málefni eldri borgara

 

Leggja skal áherslu á lýðheilsu til að bæta lífsgæði aldraðra með því að viðhalda styrk þeirra og færni. Stuðlað skal að einstaklingshæfðri þjónustu við eldri borgara og eflingu endurhæfingar og aðhlynningar í heimahúsi. Meta þarf þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu eldri borgara og bæta hana eins og við á.

 

Til þess að sporna gegn félagslegri einangrun þarf að tryggja skilvirkt upplýsingaflæði til eldri borgara um réttindi þeirra og úrræði sem standa þeim til boða.

 

Mikilvægt er að Reykjavíkurborg stuðli að fjölbreyttum úrræðum til sveigjanlegra starfsloka fyrir eldri borgara án þess að það hafi áhrif á lífeyrisréttindi þeirra. 2

 

Atvinnumál- Sveigjanlegri atvinnutækifæri

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja öllum tækifæri til þátttökuá vinnumarkaði óháð til að mynda aldri, sjúkdómum eða fötlun. Skapa þarf nýatvinnutækifæri með hlutastörfum og efla starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Einstaklingar sem hafa löngun til að vinna en skortir styrk skal valdefla og styðja til þátttökuá vinnumarkaði.

 

Fjölskyldumál

 

Barnið og velferð þess sé í fyrirrúmi. Fyrirbyggjandi barnavernd verði tryggð af Reykjavíkurborg í samstarfi við ríkið sem hluti af velferðarþjónustu við íbúana. Vistunar- og meðferðarúrræðum fyrir ungmenni verði fjölgað og þau aðlöguð að þörfum barna og ungmenna. Tryggja þarf samræmi og samfellu á milli úrræða. Fjölskyldum verði veitt sú aðstoð og upplýsingagjöf sem þarf.

 

Það er réttur barns að umgangast báða foreldra sína. Sjálfstæðisflokkurinn vill stytta úrlausnartíma tálmunarmála og borgin skal beita sér fyrir breyttu fyrirkomulagi við meðferð málanna. Í því skyni skulu hagsmunir barnsins fyrst og fremst vera hafðir að leiðarljósi.

 

Málefni innflytjenda

 

Vanda skal til verka í innflytjendamálum. Tryggja þarf að innflytjendur nái að aðlagast samfélaginu. Sporna verður gegn félagslegri einangrun með því að auðvelda innflytjendum að læra tungumálið, ná fótfestu í skóla, á vinnumarkaði og í félagsstarfi. Reykjavíkurborg þarf með markvissri stefnu í málefnum innflytjenda, að greina hvað betur megi fara, stöðu og þol borgarinnarsvo hægt sé að bjóða viðunandi þjónustu.

 

Málefni fólks með fötlun

 

Fólk með fötlun er fjölbreyttur hópur sem þjónusta þarf á einstaklingsgrundvelli. Tryggja þarf að fólk með fötlun geti sótt sér nám og/eða stundað vinnu. Einstaklingar eiga að hafa val um að stýra þjónustu sinni sjálfir á grundvelli notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) til þess að gera sem flestum kleift að lifa sjálfstæðu lífi. Stytta þarf biðlista eftir úrræðum, hvort sem um ræðir dagvistun, stuðningsþjónustu, búsetukjarna eða önnur úrræði.

 

Nýsköpun í þjónustu

 

Ráðast þarf í breytingar á núverandi þjónustu til að auka gæði og öryggi hennar og mæta frekari manneklu. Reykjavíkurborg þarf að taka sig á hvað varðar nýsköpun og innleiðingu velferðartækni.

 

Heimahjúkrun og heimaþjónusta

 

Reykjavíkurborg á að vera leiðandi í samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu svo fólk hafi kost á því að vera heima þrátt fyrir erfið veikindi. Því þarf að efla hjúkrunarteymi til að fást við sérhæfð mál, svo sem líknandi meðferð í heimahúsi, í góðu samstarfi við sjúkrahús. Einnig þarf að skýra verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Með þessu móti má m.a. vinna á fráflæðisvanda LSH. 

 

Við erum á Facebook