Upplýstur maður kýs Sjálfstæðisflokkinn

08.02.2019

Ég og Sókrates heitinn erum sammála um að hámark viskunnar sé að vita að maður veit ekki neitt. Sá sem þekkir þessa mikilvægu staðreynd og skilur telst að sönnu upplýstur maður (konur eru líka menn).

 

Þrátt fyrir að hafa orsakað stórbrotið ferli framfara sem leitt hafa manninn til farsældar nútímans hefur mannsheilinn takmörk sem okkur ber að virða. Nefna má að kynslóðir vísindamanna hafa rannsakað heilann lengur en elstu menn geta mögulega munað.

 

Samt geta vísindin hvorki sannað að Guð sé til og að maðurinn hafi frjálsan vilja. Það þýðir að við neyðumst til að lifa í myrkri vanþekkingar á mikilvægustu spurningum tilverunnar. En til að lifa af myrkrið er nauðsynlegt að kveikja ljós.


Ljósið segir okkur að við neyðumst til að treysta því að til sé eitthvað sem heitir frjáls vilji og Guð sem lætur sér annt um sitt afar sérstæða sköpunarverk. Oft þurfum við nefnilega að notast við trú en um leið þarf að byggja hana á einhverjum grunni.

 

Þá er það pólitíkin - en við sem erum ekki beinir gerendur þar getum ekkert annað en notast við trúna. Treyst þeim sem okkur líst best á eftir að hafa byggt einhvern grunn til að standa á. Grunninn byggjum við með öflun þekkingar og til að öðlast pólitíska sannfæringu er nauðsynlegt að lesa, hlusta og gera sitt besta til að skilja allt upplýsingaflóðið.

 

Þórunn Klemenzdóttir þjóðhagfræðingur rannsakaði áhrif stjórnmálaflokka á pólitískar hagsveiflur og tók rúmlega hálfrar aldar tímabil. Í ljós kom að Sjálfstæðisflokkurinn hafði áberandi yfirburði yfir aðra flokka. Það sem fræðimaður notar til að fá nafnbótina "meistari" í sínum fræðum og fær samþykki HÍ hlýtur að vera marktækt.

 

En meistararitgerð getur aldrei dugað til að móta svona mikilvæga sannfæringu eins og sú pólitíska er - það þarf meira til. Saga tuttugustu aldar sýnir með óyggjandi hætti vanhæfni vinstri flokkanna til landsstjórnar. Aðeins einn flokkur gat stjórnað og án hans gekk aldrei vel. Sá flokkur er að sjálfsögðu Sjálfstæðisflokkurinn.

 

En tuttugasta öldin er liðin og hin miklu afrek Sjálfstæðisflokksins ekkert sem við getum endalaust lifað á - skoðum þá samtímann. Við fengum kosningar tvö ár í röð og bæði skiptin höfðu okkar pólitísku andstæðingar möguleika á myndun stjórnar án aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Það var ekki hægt að mynda ríkisstjórn fyrr en

 

Sjálfstæðisflokkurinn kom að borðinu - þetta ætti að vera nógu nálægt okkur í tíma til að teljast marktæk sönnun yfirburða hans.

 

Ef við skoðum höfuðborgina okkar sannast vanhæfni vinstri flokkanna nánast daglega og þarf ekki að fara nánar í það.

 

Svo er það hin meinta spilling sem sjálfstæðismenn eru sakaðir um. Því er fljótsvarað - við búum í vestrænu réttarríki þar sem "enginn er sekur uns sekt er sönnuð". Þrátt fyrir mikla umfjöllun síðustu ára um okkar ágæta formann og viðskiptasögu hans gildir það ekki sem sönnun fyrir neinni sekt formannsins.Svo varðandi þennan blessaða heila sem skaffar okkur skoðanir þá erum við öll því marki brennd að geta ekki metið málin hlutlaust.

 

Þeir sem saka Bjarna Benediktsson um spillingu byggja á sínum skoðunum sem ýmist eru andstæðar Sjálfstæðisflokknum eða eiga auðvelt með að trúa spillingu upp á stjórnmálamenn. Það er auðvelt að trúa því vegna ýmissa ástæðna sem ekki skal farið nánar í að þessu sinni. Flest hugsandi fólk þekkir þær og hina er vonlaust að sannfæra.

 

Ég trúi því að formaðurinn okkar sé heiðarlegur og grandvar maður en get ekki sannað það. Til að það sé mögulegt þyrfti ég að fá sérfræðinga til að skoða hann og það bæði kostar mikla peninga, tekur tíma hans frá mikilvægum störfum og ekki sjálfgefið að það skili árangri.
Dómstólar og fræðimenn geta nefnilega líka klikkað en við höfum ekki betra að byggja á.

 

Við einfaldlega lifum í myrkri vanþekkingar en erum á réttri leið því vísindin eru í stöðugri þróun. En með því að kveikja ljós og lýsa upp myrkrið getum við öðlast trú sem færir okkur nær sannleikanum. Það er enginn grunnur að skoða bara fjölmiðla og láta vanmáttugan heila meta upplýsingar sem skoðanir fjölmiðlafólks trufla.


Þess vegna þurfum við stöðugt að hugsa og leitast við að láta ekki heilann stunda of mikla mötum. Hann kann ekkert annað en notast við okkar eigin upplifun og hún segir nánast ekkert.


Málefnalegar rökræður, gagnrýn hugsun og stanslaus lestur - þetta eru skástu leiðirnart til að teljast upplýst manneskja.


Ófullkomleiki mannsins gerir það að verkum að mesta viskan felst í að vita að maður veit ekki neitt.
Þá fyrst opnast leiðir hugans fyrir þekkingu og að lokum opnast gátt fyrir örlítinn skilningsvott.

 

Höf: Jón Ragnar Ríkharðsson, formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins