Frábært framtak þingmanna Sjálfstæðisflokksins

13.03.2019

 

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur stigið mikilvægt skref til að efla traust milli þings og þjóðar, sem sýnir að okkar kjörnu fulltrúar vilja hafa pólitískan tilgang.

 

Það er ekki nóg að áreita kjósendur með símtölum og sitja fyrir þeim fyrir framan stórverslanir í aðdraganda kosninga.

 

Það er svo mikil yfirborðsmennska að stunda atkvæðaveiðar með smjaðri við kjósendur á fjögurra ára fresti og láta svo ekkert í sér heyra milli kosninga. Kjörnir fulltrúar Sjáæfstæðisflokksins sýna með þessu að þeim er alvara og þeir vilja heyra hvað fólkið í landinu er að hugsa.


Sjálfstæðisflokkurinn stendur sennilega  best allra flokka - mælist alltaf stærstur á þingi og hefur komið best út úr þremur kosningum í röð. Það hefur enginn flokkur unnið eins glæsta sigra frá lýðveldisstofnun og ekkert bendir til annars en hann verði áfram stærsti flokkurinn á þingi.

 

Við sitjum í ríkisstjórn og það er engin sérstök pressa á kjörnum fulltrúum umfram aðra flokka.

 

Með þessu sýna okkar kjörnu fulltrúar að þeir óttast ekki kjósendur heldur eru tilbúnir að ræða við þá og hlusta á þeirra sjónarmið - jafnvel þótt langt sé í kosningar. Ég hef lengi talað fyrir auknu samtali milli þings og þjóðar og greinilega deila fleiri þeirri mikilvægu skoðun með mér.

 

Sjálfstæðisfólk um land allt getur verið stolt af okkar öfluga þingflokki sem sýnir einlægan vilja til að efla traust á þinginu sem hefur verið lengi fyrir neðan frostmark.

 

Svo bíð ég spenntur eftir að sjá okkar góðu borgarfulltrúa gera slíkt hið sama vegna þess að það er alltaf hættulegt fyrir stjórnmálamenn að einagrast í þröngum hópum kollega sinna og grasrótar eigin flokks.
 

Höf: Jón Ragnar Ríkharðsson