Höndlar borgarstjórinn ekki venjulega pólitík?

08.04.2019

Venjuleg pólitík snýst um valdabaráttu ólíkra flokka sem mynda stjórn og stjórnarandstöðu.

 

Hlutverk stjórnarandstöðunnar er að finna veikleika ríkjandi stjórnar í þeirri von að ná völdunum af þeim.

 

Þessi ósköp venjulega pólitík á að halda ríkjandi stjórnvöldum á tánum og raunverulega styrkja þá sem hafa völdin.


Svona virkar lýðræðið best. Borgarstjórinn þekkir sjálfur þessa alkunnu staðreynd en hann á erfitt með hana þegar hún beinist að honum. Þannig að segja má að borgarstjórinn höndli ekki venjulega pólitík þegar hann er sjálfur við völd.


Opinberar eftirlitsstofnanir hafa komist að þeirri niðurstöðu að stjórnsýsla borgarinnar sé alls ekki nógu góð og staðfest ýmislegt sem minnihlutinn hefur áður bent á. Þegar sú staða kemur upp er eðlilegt að minnihlutinn (stjórnarandstaðan) sýni fulla hörku og hjóli hart í meirihlutann. Sterkir stjórnmálamenn eflast við hverja raun en greinilega eru ekki miklir bógar sem mynda meirihlutann í borginni.

 

Svo mæta stuðningsmenn borgarstjórans og reyna að gera eina af þekktustu staðreyndum stjórnmálanna tortryggilega - segja hægri menn ósátta við að hafa ekki völdin í borginni. Við sjálfstæðismenn eigum það sameiginlegt með okkar pólitísku andstæðingum að vilja vera við völd - helst í öllum sveitafélögum landsins og ráða landsmálunum líka.

 

Það hefur engan tilgang að leyna svona augljósri staðreynd eða gera hana tortryggilega. Hver hefur stofnað stjórnmálaflokk til að vera alltaf í stjórnarandstöðu og neita að keppast um völdin?

 

Að sjálfsögðu enginn vegna þess að völd eru besta verkfærið sem stjórnmálaflokkar geta notað til að sanna getu sína og koma sínum hugsjónum í framkvæmd.

 

Það er að sjálfsögðu ekki mitt að dæma um hvort meirihlutanum sé sýnd of mikil óbilgirni eða harka.

 

Vegna þess að ég hef alltaf verið sannfærður um vanhæfni vinstri manna til að höndla með pólitísk völd og sýni þeim örugglega mikla óbilgirni sjálfur. Án þess að það sé endilega ætlunin. En svona virkar pólitíkin - hún er í eðli sínu blóðugt stríð þar sem ólík sjónarmið takast á.

 

En það er lítil reisn yfir því að kvarta yfir ósanngirni þegar vitað er að pólitíkin er alls ekki í eðli sínu sanngjörn.

 

Það er þá hlutverk borgarstjórans og samherja hans að sannfæra kjósendur um sínar áherslur, stefnur og verk - að þau sé öll til fyrirmyndar. Einnig að sannfæra borgarbúa um óbilgirni pólitískra andstæðinga og stefna að sigri í næstu kosningum.

 

Svo er það hlutverk minnihlutans og okkar sem styðjum hann að sannfæra kjósendur borgarinnar um ágæti okkar og vanhæfni minnihlutans - stunda venjulega pólitík.

 

En kvarta yfir venjulegri pólitík? 


Það gefur tilefni til að efast um pólitískan styrk borgarstjórans og stuðningsmanna hans.

 

Höf: Jón Ragnar Ríkharðsson, sjómaður og formaður Verkalýðsráðs