Ályktun stjórnar Félags Sjálfstæðismanna í Grafarvogi

13.04.2020

Stjórn Félags Sjálfstæðismanna í Grafarvogi fagnar þeirri samstöðu sem náðst hefur meðal borgarstjórnar Reykjavíkur vegna aðgerða sem grípa á til vegna COVID – 19 faraldursins. Félagið fagnar því sérstaklega að þær tillögur sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn lögðu fram þann 17.03.2020 hafi verið teknar inn í þann aðgerðarpakka sem borgin hefur sett fram. Þessar aðgerðir skipta miklu fyrir borgarbúa og eru góð byrjun á því að takast á við efnahagslegar afleiðingar faraldursins.

 

Félagið hefur þó áhyggjur af fjárhagsstöðu borgarinnar þar sem ekki hefur verið lögð áhersla á það á síðustu árum að greiða niður skuldir, heldur hafa þær verið að aukast. Áhyggjur félagsins snúa að því að hætt er við því að borgarsjóður geti ekki stutt við fyrirtæki og íbúa líkt og þarf að gera án þess að ráðast í lántökur. Síðustu ár hefur verið sögulegt tekjugóðæri hjá borgarsjóði og hafa Sjálfstæðismenn margoft bent á það að við slíkar aðstæður beri að greiða niður skuldir í þeim tilgangi að gera borgina betur í stakk búna til þess að takast á við tímabil stöðnunar og samdráttar í tekjum. Þetta er sú leið sem farið hefur verið með ríkissjóð sem gerir ríkisstjórn og Alþingi það kleift að styðja myndarlega við fyrirtæki og heimili í landinu án þess að skuldsetja ríkissjóð og er það til fyrirmyndar og eftirbreytni.

 

Félaginu þykir það þá einnig miður að ekki skuli meira fé, sem er úthlutað í verkefni á vegum borgarsjóðs, eiga að fara í efri byggðir, en virðast þær eiga að sitja á hakanum líkt og svo oft áður. Félagið vill því hvetja borgarstjórn til þess að huga betur að framkvæmdum í hverfum borgarinnar austan Reykjanesbrautar.

 

Fyrir hönd stjórnar

Þorvaldur Tolli Ásgeirsson

Formaður FSG